Jæja, nú er landsleikjahléinu lokið og menn geta tekið gleði sína á ný. Okkar menn taka á móti Roberto Martinez og strákunum hans í Wigan. Eftir nokkuð erfiðan 2-3 útisigur á Southampton fáum við það sem er samkvæmt bókinni „léttur“ heimaleikur.
Hver einn og einasti stuðningsmaður United fékk vægt taugaáfall þegar fréttir bárust á sama degi að Shinji Kagawa og Robin van Persie hefðu báðir meiðst í landsliðsverkefnum sínum. Fréttir gefa þó til kynna að þeir glími ekki við alvarleg meiðsli og spánýjar fréttir gefa til kynna að þeir séu klárir í slaginn. Að öðrum meiðslapésum er það helst að frétta að Phil Jones verður frá næstu tvo mánuðina eftir að hafa orðið fyrir bakmeiðslum á æfingu og Chris Smalling er ennþá frá. Jonny Evans virðist hinsvegar vera að braggast og spilaði hann báða landsleiki N-Írlands. Það eru góðar fréttir því að nú þegar Meistaradeildin fer að fara af stað er liðið að sigla inn í þétt leikjaprógram og því gott að hægt sé að hvíla Rio og Vidic. Ashley Young er ásamt þeim félögum RvP og Kagawa spurningarmerki fyrir þennan leik. Ferguson sagði að Darren Fletcher yrði í hópnum fyrir þennan leik og eru það gleðifregnir, sérstaklega fyrir þá okkar sem höfðu afskrifað hann.